Opið hús á Hesti

apríl 1, 2009
Landbúnaðarháskóli Íslands verður með opið hús í kennslu- og rannsóknafjárhúsunum að Hesti í Borgarfirði laugardaginn 4. apríl nk. Líkt og árið 2007 verða m.a. kynnt rannsóknaverkefni í sauðfjárrækt og jarðrækt á vegum LbhÍ og samstarfsaðila, auk fyrirhugaðra verkefna á komandi misserum. Nám við LbhÍ verður kynnt auk þess sem lambhrútar verða til sýnis og annað fé. Auk þess verða ýmsar hressilegar uppákomur yfir daginn ætlaðar bæði börnum og fullorðnum og þá verður boðið upp á skemmtilegar þrautir tengdar sauðfjárbúskap. Húsið verður opnað klukkan 12 en skipulagðri dagskrá lýkur kl. 17.

Fjöldi bænda og áhugafólks um sauðfjárrækt hefur komið á opin hús að Hesti á liðnum árum og var aðsóknarmet slegið árið 2007 en þá komu á sjöunda hundrað gestir. Í ár er reiknað með enn fleirum, enda tvö ár liðin frá síðasta opna húsi.

Fyrir nokkrum árum var skipulagi opna dagsins breytt og fyrirtækjum og stofnunum gefið tækifæri til að kynna sig og sínar vörur og tóku á þriðja tug aðila þátt. Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri búrekstrar, segir að vegna takmarkaðs pláss þurfi sýningaraðilar að panta aðstöðu sem fyrst. Vakin er sérstök athygli á því að ókeypis er að vera með á opnum degi hjá okkur, ekkert sýningar- eða fermetragjald er tekið af samstarfsaðilum LbhÍ.

Sími Snorra er 843-5341. Tölvupóstur: snorri@lbhi.is
Hægt er að skoða yfirlit af sýningarsvæðinu með því að ýta hér.

Share: