Í síðustu viku tók Borgarbyggð formlega í notkun hugbúnaðarlausnina OneLandRobot frá OneSystems. Fagaðilum var boðið til opnunar- og kynningarhófs í ráðhúsinu fimmtudaginn 21. mars síðastliðinn, þar sem sveitarstjóri veitti kerfinu formlega viðtöku og starfsmenn OneSystems kynntu kerfið.
OneLandRobot er ný, sjálfvirk útgáfa frá OneSystem. Markmið hugbúnaðarins er að gera byggingarleyfisumsóknaferlið skilvirkara og aðgengilegra fyrir húsbyggjendur ásamt því að gera umsækjendum og þeim sem að verkinu koma kleift að fylgjast með stöðu verksins í gegnum Íbúagáttina.
Allar byggingarleyfisumsóknir og tilkynningar um framkvæmdir fara nú fram í gegnum Íbúagátt Borgarbyggðar með rafrænum skilríkjum. Byggingarstjórar og iðnmeistarar skrá sig jafnframt rafrænt og þurfa ekki lengur að skila inn undirskriftum á pappír til byggingarfulltrúa.
Borgarbyggð er eitt af fyrstu sveitarfélögum landsins til að róbótavæða hluta stjórnsýslunnar. Vonast er til að hugbúnaðarlausnin muni koma sér vel fyrir umsækjendur ásamt því að efla nauðsynlegt utanumhald og eftirfylgni við umsóknir á sviði byggingarfulltrúa.
Fréttaskot Umhverfis-og skipulagssviðs nr. 8