Nú standa yfir framkvæmdir við endurbætur á sparkvellinum við Grunnskólann í Borgarnesi. Fyrirtækið Altís var með lægsta tilboðið í verkið og Peter Winkel Jessen, verkfræðingur hjá SportVerk og sérfræðingur í íþróttamannvirkjum, hefur verið ráðgjafi Borgarbyggðar við framkvæmdina.
Um síðastliðna helgi var gamla grasteppið tekið af vellinum og á mánudaginn var lagður 20 mm SBR gúmmípúði sem er vandaðari útfærsla en gert var ráð fyrir í fyrstu áætlunum.
Vaktmaður á vegum Borgarbyggðar var að staðnum í gærkvöldi til að koma í veg fyrir að enginn færi út á völlinn á meðan að gúmmípúðinn var að harðna. Í dag stendur til að leggja 24mm grasteppi yfir gúmmípúðann. Teppið verður límt saman og ofan á það verður sett sandlag en það þarf að gerast í þurru veðri. Í lok vikunnar munu starfsmenn áhaldahússins setja upp mörkin og verður völlurinn þá tilbúinn til notkunar.
Þessar endurbætur á sparkvellinum eru langþráðar fyrir knattspyrnuiðkendur á öllum aldri og með þessari útfærslu er allt gúmmíkurl úr sögunni. Því má vænta að sparkvöllurinn í Borgarnesi verði að loknum framkvæmdum eins og þeir best geta orðið.