Nýtt fræðslurjóður og endurbættir stígar í fólkvanginum Einkunnum við Borgarnes, voru formlega tekin í notkun síðasliðinn laugardag 3. október. Safnast var saman í fræðslurjóðrinu sem er við Litlu – Einkunnir og þaðan haldið í göngu um ný lagða stíga undir leiðsögn nefndarmanna í umsjónarnefnd fólkvangsins. Þegar göngufólk kom aftur í fræðslurjóðrið var drukkið ketilkaffi og pylsur grillaðar yfir eldstæði rjóðursins.
Skógræktarfélag Borgarfjarðar hafði umsjón með framkvæmdunum og að þeim vann atvinnuátakshópur í sumar og haust undir stjórn Friðriks Aspelunds. Auk þess að leggja 2.1 km að nýjum göngustígum með kurli og koma upp fræðslurjóðri, voru girðingar og annað rusl fjarlægt, lagðar steintröppur upp á Syðri-Einkunn á tveimur stöðum og reist gerði umhverfis bílastæðin við Litlu – Einkunnir. Atvinnuátakið var samvinnuverkefni Borgarbyggðar, Samgönguráðuneytisins, Vinnumálastofnunar, Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Borgarfjarðar. Framkvæmdirnar í Einkunnum voru jafnframt styrktar af Menningarráði Vesturlands og Ferðamálastofu. Er öllum þessum aðilum þakkaður stuðningurinn og vinnuhópnum fyrir vel unnin störf.