Nýtt skógræktarsvæði fyrir Grunnskólann í Borgarnesi

september 23, 2020
Featured image for “Nýtt skógræktarsvæði fyrir Grunnskólann í Borgarnesi”

Fyrr í sumar var Grunnskólanum í Borgarnesi úthlutað nýju svæði til skógræktar í landi sveitarfélagsins. Um er að ræða samstarfsverkefni sveitarfélagsins, Skógræktarfélags Borgarfjarðar og grunnskólans. 

Fyrsta gróðursetning í framtíðarskógræktarsvæði fór fram  10. september 2020 s.l. Nemendur úr 9. og 4. bekk Grunnskólans í Borgarnesi tóku þátt, alls um 70 manns. Laufey Hannesdóttir og Friðrik Aspelund tóku á móti hópnum og kenndu réttu handtökin.

 

Svæðið er rétt vestan við flugvöllinn. Þarna voru lögð drög að nýjum Yrkjuskógi Grunnskóla Borgarness en áður hefur skólinn gróðursett í landi Borgar. 268 birkiplöntur voru gróðursettar að þessu sinni. Þá sáu börnin einnig um að gróðursetja 49 stafafurur fyrir björgunarsveitirnar í Borgarfirði Brák, Heiðar og Ok. Þær plöntur eru afrakstur sölu rótarskota sem seldust síðustu áramót.

 

Ákveðið hefur verið að gróðursetningin verði vinabekkjaverkefni 4. og 9. bekkja í framtíðinni. Til stendur að finna gott nafn á hinn nýja framtíðarskóg.


Share: