Nýr stigi upp á Grábrók

júlí 30, 2013
Umhverfisstofnun hefur nú samið við byggingarfyrirtæki Eiríks J. Ingólfssonar um smíði nýs 103 þrepa stiga á Grábrók og mun fyrirtækið hefja þá smíði í haust. Þetta verður verðug viðbót við þá stiga sem fyrir eru á svæðinu og ferðamenn láta mjög vel af.
Á undanförnum árum hefur byggingarfyrirtæki Eiríks smíðað fyrir Borgarbyggð alla stigana sem liggja upp á Grábrók. Auk þess hefur sveitarfélagið í samráði við Umhverfisstofnun látið laga stíga, hanna skilti og loka fyrir óæskilegar gönguleiðir með togvír. Þær lokanir hafa gefist mjög vel og er merkjanlegur árangur af þeim. Heildarkostnaður, við þessi verk, hefur verið rúmar 15 milljónir. Þar af hefur Borgarbyggð fengið í styrk frá Ferðamálastofu um 8 milljónir.
 
Frá árinu 2010 hefur Umhverfisstofnun verið með hópa sjálfboðaliða í vinnu við Grábrók á hverju ári, undir stjórn landvarðar sem hér starfar á sumrin, við að raka í óæskilega stíga, setja upp skilti, bæta mosa í sár, tína rusl, bera á stigana og yfirfara lokanir og fjölga þeim.
 
Þessi samvinna er mikilvægur hlekkur í því að halda við mjög fjölsóttum ferðamannastað.
 
Myndir: Björg Gunnarsdóttir umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi.

Share: