Ný leikskóladeild í byggingu í Bifröst

maí 15, 2002
Borgarbyggð bauð nýverið út byggingu leikskóladeildar á Bifröst. Þrjú tilboð bárust og hefur verið samið við lægstbjóðanda, S.Ó. húsbyggingar s.f. um verkið. Samningurinn hljóðar upp á 33,6 milljónir króna en framkvæmdin kostar í heild um 45 milljónir króna. Þetta er stærsta framkvæmd á vegum Borgarbyggðar á árinu 2002.
 
Ný leikskóladeild á Bifröst verður 220 fermetrar auk 20 fermetra tengigangs við eldri leikskóla. Húsið er úr forsteyptum einingum. Samkvæmt verksamningi á að skila verkinu fullgerðu 15.september n.k. Jafnhliða þessari nýbyggingu verða gerða nokkrar endurbætur á núverandi húsnæði leikskólans, þar sem m.a. aðstaða starfsmanna mun batna verulega.

Með þessari stækkun leikskólans á Bifröst verður mætt þörfum fyrir aukna leikskólaþjónustu á samhliða stækkun samfélagsins þar. Gert er ráð fyrir að íbúar verði orðnir 600 eftir tvö til þrjú ár og börn á leikskólaaldri milli 60 og 70 en í vetur hafa verið tæplega 40 börn í leikskólanum.

Share: