Nýjar hugmyndir um Einkunnir kynntar

maí 5, 2003

 

Nemendur á umhverfisskipulagsbraut Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri afhentu Borgarbyggð s.l. föstudag hugmyndir sem þau hafa unnið um framtíðarnýtingu og fyrirkomulag Einkunna, sem er útivistarsvæði Borgnesinga, sérkennilegur og fallegur staður vestast í Hamarslandi við Borgarnes. Það var Páll Brynjarsson bæjarstjóri sem tók við verkefnunum úr hendi nemenda og kennara við LBH. Fram kom m.a. í máli Páls við það tækifæri að hugmyndin að samstarfi sveitarfélagsins og Landbúnaðarháskólans varðandi skipulag svæðisins hefði kviknað í tengslum við vinnu íbúa sveitarfélagsins við staðardagskrá 21. Þar hefði verið lögð rík áhersla á að efla útivistarsvæðið í Einkunnum og leit nýrra hugmynda varðandi skipulag svæðisins. Páll þakkaði nemendunum þeirra framlag til uppbyggingar útivistarsvæðisins og sagði að hugmyndir þeirra myndu nýtast sveitarfélaginu vel í framtíðinni.
Verkefni nemendanna, sem stunda nám á umhverfisskipulagsbraut LBH, lúta því að skapa einkunnasvæðinu sérstöðu og auknar vinsældir. Ýmsar athyglisverðar hugmyndir voru kynntar, m.a. Þórunnar Eddu Bjarnadóttur um það hvernig er hægt að nýta svona útivistarsvæði, sérstaklega fyrir hreyfihamlaða.
Ræktaður hefur verið skógur í Einkunnum síðan 1951 þegar hreppsnefnd þáverandi Borgarneshrepps girti þar allstóran blett og afhenti hann skógræktarfélaginu Ösp sem þá var stofnað. Á síðari árum hefur sveitarfélagið séð um rekstur og framkvæmdir á þessu svæði og hefur þar verið talsvert unnið til að gera svæðið að ákjósanlegu útivistarsvæði og plöntur sem gróðursettar hafa verið á svæðinu dafna vel. Hið sérkennilega nafn Einkunna er mjög gamalt og kemur fyrir í Egilssögu.

Share: