Áskorun um lækkun gangagjalds

maí 12, 2003

Síðastliðinn mánudag afhenti bæjarstjóri Borgarbyggðar Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra, áskorun frá sveitarfélögum á Vesturlandi þar sem skorað er á ráðherra að leita allra leiða til að lækka gjaldið í Hvalfjarðargöng. Að áskoruninni standa Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Hvítársíðuhreppur og Skilmannahreppur.

Í ályktuninni er því fagnað að samgönguráðherra hafi óskað eftir viðræðum við Spöl ehf. um mögulega lækkun á gjaldinu í Hvalfjarðargöng. Skora sveitarfélögin á samgönguráðherra og fjármálaráðherra að leita allra leiða til að lækka gjaldið. Samgönguráðherra sagðist í samtali við Skessuhorn fagna þessari áskorun sveitarfélaganna og málið væri nú þegar í réttum farvegi með yfirstandandi viðræðum við Spöl.


Share: