Ný sýning í Hallsteinssal – Safnahús Borgarfjarðar

maí 14, 2021
Featured image for “Ný sýning í Hallsteinssal – Safnahús Borgarfjarðar”

Þrátt fyrir heimsfaraldur er árið 2021 líflegt sýningaár í Safnahúsinu og verða alls níu sýningar opnaðar þar á árinu, ýmist á fagsviði byggðasafns, skjalasafns eða listasafns. Næsta verkefni er myndlistarsýning í Hallsteinssal sem ber heitið Landið mitt og er fyrsta sýning Ingu Stefánsdóttur sem þar sýnir olíuverk. Inga er búsett í Lundarreykjadal. Hún er sálfræðingur að mennt og starfi en hefur málað samhliða því um nokkurt skeið. Náttúran er viðfangsefni hennar en verkin byggir hún á ljósmyndum.

„Náttúran er síbreytileg og sami staður getur gefið innblástur þegar ljós og litir skarta sínu fegursta. Málun hefur alltaf höfðað til mín og er mín leið til að róa hugann og byggja upp innri frið“

Fyrsti opnunardagur sýningarinnar er laugardagurinn 15. maí og síðasti dagur 17. júní.

Um sölusýningu er að ræða. Hún verður opin virka daga 13 til 18 og um helgar 13 til 17.

Stefnt er að viðveru listamannsins á sýningunni allar helgar á opnunartíma.

Menningardagskrá í Safnahúsi er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.


Share: