Tónlistarskóli Borgarfjarðar stendur fyrir tónleikum í Hjálmakletti í kvöld. Þetta er hluti af „Nótunni“ sem er samstarf tónlistarskólanna á Íslandi. Tónleikarnir eru haldnir í tengslum við Dag tónlistarskólanna sem er í lok febrúar ár hvert.
Nemendur flytja fjölbreytta dagskrá, einleik og samspil/söng og munu tónleikagestir kjósa þrjú atriði sem fara áfram á Vesturlandstónleika sem haldnir verða á Akranesi í byrjun mars. Af þeim tónleikum eru síðan valin atriði sem fara í Hörpu um miðjan mars, en þar koma fram nemendur af öllu landinu.
Þetta er skemmtileg tilbreyting fyrir nemendur og einnig tónleikagesti að fá að hafa áhrif á hvaða atriði fara áfram. Hægt verður að kaupa sér kaffi/djús og meðlæti í hléi á kr. 500.
Tónleikarnir eru öllum opnir og hefjast þeir kl. 20:00 í kvöld, mánudaginn 27. febrúar.
Á myndinni má sjá systkinin Önnu Sólrúnu og Kristleif Darra leika fjórhent á píanó.