Norðurlandamót í frjálsum á Skallagrímsvelli

ágúst 18, 2000

Ungmennasamband Borgarfjarðar, í samvinnu við Borgarbyggð og Frjálsíþróttasamband Íslands, hefur umsjón með Norðurlandamóti unglinga sem haldið verður á Skallagrímsvelli helgina 26. – 27. ágúst 2000.

Þetta mót er fyrsta alþjóðlega frjálsíþróttamótið sem haldið er utan höfuðborgarsvæðisins. Er það mikill heiður fyrir Borgfirðinga að fá að halda mótið.

NM er liðakeppni milli Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Íslands. Tveir keppendur eru frá hverju landi í grein, að því undanskildu að Ísland og Danmörk eru með sameiginlegt lið.

Erlendir keppendur og gestir verða í kringum 300 manns. Erlendir og íslenskir keppendur gista á Hótel Borgarnesi, Hótel Reykholti, Hótel Hvanneyri og í Varmalandsskóla. Íslensku keppendurnir verða í kringum 25.

Undirbúningsnefnd fyrir mótið hefur starfað síðan í nóvember og hefur undirbúningur gengið vel.

Keppni hefst á laugardag 26. ágúst kl. 11.00 og lýkur kl. 17.30.

Setningarathöfn verður kl. 13.45 á laugardag.

Á sunnudag hefst keppni kl. 10.00 og lýkur kl. 15.30.

Á NM verður keppt í fyrsta sinn í kappgöngu á Íslandi svo vitað sé. 10.000 m göngu karla og 5.000 m göngu kvenna. Einnig er þetta í fyrsta sinn sem keppt er í hindrunarhlaupi kvenna á Íslandi.

Borgarbyggð og Ungmennasamband Borgarfjarðar hafa í samvinnu keypt tæki á völlinn auk þess sem fyrirtækin Vírnet og Límtré styrktu mótið með efni í hindranir fyrir hindrunarhlaup og búr fyrir sleggju- og kringlukast. Ingibergur og Sigmar í Rauðanesi hafa smíðað hindranirnar og Sveinn Pétursson hefur tekið að sér að smíða búrið auk ýmissa annarra viðhaldsverkefna. Fjölmargir aðrir koma að verki með að gera völlinn sem bestan. Stuðningur þessara fyrirtækja og einstaklinga er ómetanlegur.

Vel hefur gengið að fá starfsfólk á mótið en enn vantar herslumuninn. Þeir sem áhuga hafa á að starfa með okkur eru eindregið hvattir til að hafa samband við skrifstofu UMSB sem fyrst.

Á laugardagskvöldinu eftir keppni býður Borgarbyggð keppendum og starfsfólki í grillveislu auk þess sem skemmtiatriði verða í Íþróttamiðstöðinni Borgarnesi. Þar mun m.a verða boðið upp á fiðluleik, dans frá dansskóla Jóns Péturs og Köru, söngatriði frá eldri unglingum, auk þess sem óskað var eftir að hver þjóð kæmi með smá skemmtiatriði.

Sjáumst á Skallagrímsvelli 26. og 27. ágúst.


Share: