„Að undanförnu hefur verið uppi umræða meðal nokkurra íbúa Borgarness um að nauðsynlegt sé að hefja aðgerðir gegn njóla, kerfli og lúpínu innan marka Borgarness til að hamla gegn enn frekari útbreiðslu þessara tegunda. Einnig hafa komið ábendingar um að grípa þurfi til aðgerða til að hamla gegn útbreiðslu kerfils í uppsveitum Borgarfjarðar. Skoðanir eru reyndar nokkuð skiptar varðandi ágæti lúpínunnar en kerfillinn er af vel flestum metin ágeng skaðaplanta. Njóli hefur alla tíð þótt heldur leið planta. Umræðan hefur frekast beinst í þá átt að sveitarfélagið eigi að annast aðgerðir og viðbrögð á þessu sviði. Nú er staðan þannig að starfsmenn áhaldahússins hafa ekki svigrúm né tíma til að hefja miklar aðgerðir gegn njóla, kerfli eða lúpínu, hvort sem er í Borgarnesi eða víðar í sveitarfélaginu. Þeir eru fullsetnir með að sinna sínum daglegu störfum s.s. að annast slátt og umhirðu grassvæða í sveitarfélaginu (Borgarnesi, Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi), annast almennt viðhald mannvirkja þar sem þörfin er brýnust hverju sinni auk þess að sjá um margháttuð önnur verkefni sem varðar almenna starfsemi sveitarfélagsins á sumrin eins gengur. Það reyndist ekki auðvelt að fá starfsmenn til starfa í áhaldahúsið þegar auglýst var eftir starfsfólki og umsóknir um störf hjá vinnuskólanum voru fáar. Viðbrögð verða hins vegar mjög snörp ef þau verk sem starfsmenn áhaldahússins hafa sem sín meginverkefni eru ekki unnin á þeim tíma sem áætlað er og nauðsynlegt er talið. Því er erfitt að sjá að starfsmenn áhaldahússins geti horfið frá aðkallandi verkum og farið í stórfelldar aðgerðir til að hefta framgang lúpínu, kerfils og njóla innan Borgarness eða annarsstaðar í sveitarfélaginu. Margir íbúar í Borgarnesi eru á hinn bóginn mjög áhugasamir um að eitthvað sé aðhafst á þessu sviði. Það er því þeim mun meiri ástæða þar sem geta sveitarfélagsins til aðgerða í þessu efni er mjög takmörkuð að þeir íbúar Borgarness, sem sérstaklega vilja hefta framgang kerfils og njóla, taki sig saman um aðgerðir nálægt sínum lóðum eða á öðrum stöðum sem geta frekar flokkast undir opin svæði. Þetta er ekki verk sem verður unnið í einu átaki en með skipulögðum viðbrögðum og góðri þátttöku íbúanna er hægt að halda ágengum jurtum niðri og hefta enn frekar útbreiðslu þeirra þar sem ástæða þykir til.“