Námskeið um borgfirskar skáldkonur og Próna-bóka-kaffi Snorrastofu

október 3, 2016
Featured image for “Námskeið um borgfirskar skáldkonur og Próna-bóka-kaffi Snorrastofu”

Að venju hefjast viðburðir vetrarins í Snorrastofu og víðar um sveitir fyrir alvöru þegar október færist yfir. Fyrst á dagskránni er námskeið um borgfirskar skáldkonur þriðjudaginn 4. október í Landnámssetrinu Borgarnesi og fyrsta prjóna-bóka-kaffi bókhlöðunnar verður á sínum stað í Reykholti fimmtudaginn 6. október. Báðir viðburðirnir hefjast kl. 20.
Helga Kress bókmenntafræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands leiðir námskeið vetrarins en það felst í sex kvöldum og er samstarfsverkefni Snorrastofu, Landnámsseturs og Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi. Fjallað verður um um borgfirskar skáldkonur í íslenskri skáldskaparhefð með áherslu á yrkisefnum þeirra, einkennum og áhrifum, ásamt viðtökum og stöðu í bókmenntasögunni. Það er Símenntunarmiðstöðin sem sér um skráningar á námskeiðið (http://simenntun.is/namskeid/borgfirskar-skaldkonur-2/) og enn frekari upplýsingar um það eru á vef Snorrastofu.
Prjóna-bóka-kaffið er kvöldstund í bókhlöðunni þar sem setið er við hannyrðir, spjallað í anda baðstofunnar gömlu og heitt kaffi er á könnunni. Það verður hálfsmánaðarlega í vetur og er öllum opið. Safnið er opið til útlána og gestir eru hvattir til að koma með hugmyndir og hugðarefni hvers konar. Kvöldin hafa reynst góður vettvangur fyrir þá sem hafa frá einhverju fróðlegu og skemmtilegu að segja eða vilja kynna viðfangsefni sín á annan hátt.
„Snorrastofa væntir góðrar viðtöku þessara áhugaverður viðburða og mun á næstunni gefa út heildarskrá viðburða vetrarins. Henni verður dreift á öll heimili í héraðinu,“ segir í tilkynningu.


Share: