Námskeið fyrir foreldra barna í Andabæ

nóvember 23, 2018
Featured image for “Námskeið fyrir foreldra barna í Andabæ”

Foreldrar í Andabæ sóttu námskeið hjá Lindu Hrönn Þórisdóttur frá Barnaheill um verkefnið Vinátta (Fri for Mobberi) þann 19. nóvember sl. Verkefnið Vinátta felst í því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Lögð er sérstök áhersla á að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti og hvetja þau til að bregðast við því. Námskeiðið var vel sótt og góð umræða átti sér stað.  Fram kemur á heimasíðu Barnaheilla að hugtakið einelti merki ekki alltaf það sama í hugum allra. Einelti er flókið fyrirbæri en mikilvægt er að foreldrar og starfsfólk skóla hafi sameiginlegan skilning á hugtakinu. Í Vináttu-verkefni Barnaheilla er gengið út frá því því að:

–     Einelti sé hópfyrirbæri.

–     Einelti sé oftast kerfisbundið og markvisst.

–     Einelti geti verið beint eða óbeint í formi útilokunar.

–     Einelti eigi sér stað í félagslegu umhverfi sem barnið hefur ekkert val um að vera í.

Haft er í huga þegar tekist er á við einelti eða neikvæða hegðun að allir haldi reisn.

Unnið er með verkefnið á tveim elstu deildum skólans, en verið er að þróa efni fyrir yngstu börnin og mun það koma eftir áramótin. Starfsfólk Andabæjar telur að góð samvinna heimila og skóla sé grundvöllur að góðri vellíðan barna.

 


Share: