Næstu skref í heilsueflingu Borgarbyggðar

október 2, 2017
Featured image for “Næstu skref í heilsueflingu Borgarbyggðar”

Út er komin áfangaskýrsla um heilsueflingu í Borgarbyggð en gengið var frá samningi við Embætti landlæknis sl. vor um þátttöku Borgarbyggðar í verkefninu Heilsueflandi samfélag.  Heilsueflandi samfélag er samfélag sem setur heilsu og heilsueflingu í forgrunn í allri stefnumótun og þjónustu og býr þar með til aðgengi og umgjörð sem gerir öllum íbúum kleift og auðvelt að taka heilsusamlegar ákvarðanir. Horft er til allra þátta heilsu, þ.e. líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu og vellíðunar. Verkefninu er skipt upp í fjóra áhersluþætti:

  • næringu og mataræði,
  • hreyfingu og útivist,
  • líðan og geðrækt og
  • lífsgæði.

Sveitarstjórn skipaði stýrihóp með fulltrúum skóla, fyrirtækja, eldri borgara, íþróttafélaga, heilsugæslu og félagsþjónustu í stýrihóp um heilsueflandi samfélag. Þau eru Geirlaug Jóhannsdóttir, Gunnlaugur A. Júlíusson, Guðjón Guðmundsson, Guðrún S. Hilmisdóttir, Kristín Gísladóttir, Lilja S. Ólafsdóttir, Linda Kristjánsdóttir, Pálmi Blængsson, Theodór Þórðarson, Freyja Þ. Smáradóttir, Guðrún María Harðardóttir,  Jakob Guðmundsson og Anna Magnea Hreinsdóttir. Hefur hópurinn fundað reglulega og staðið fyrir íbúaþingi í maí sl. þar sem haldnir voru fyrirlestrar og umræður í kjölfarið þar sem margar hugmyndir kviknuðu. Að mati þátttakenda á íbúaþinginu liggja tækifærin og lausnirnar í að efla heilsu íbúa í lagningu göngu- og hjólastíga víða í sveitarfélaginu, að setja niður útihreystibrautir, bjóða hollari næringu sem víðast og að eiga jákvæðar fyrirmyndir sem hvetja íbúa áfram. Íbúar gætu sett sér hreyfingaráætlun, nýta morgunleikfimi og snyrta til í kringum sig. Einnig geta íbúar breytt viðhorfi með jákvæðu tali og verið hvetjandi. Þeir geta gengið í vinnuna og sópað í kringum heimilin sín. Unnið verður að þeim þáttum sem fram komu á þinginu á næstu þremur árum og tillit tekið til þeirra við gerð fjárhagsáætlunar. Auk þeirra hugmynda sem komu fram á þinginu ræddi stýrihópurinn um Sundnámskeið fyrir 60+, vikulega heilsumola t.d. í Íbúanum, að bjóða eldri borgurum upp á vikulega tíma í íþróttahúsunum á veturna fyrir göngur innanhúss til að stuðla að hreyfingu meðan færðin er sem verst, leiðsögn í tækjasal fyrir eldri borgara og að finna fyrirliða sem geta hvatt íbúa áfram í heilsusamlegu líferni. Heilsueflandi samfélag Áfangaskýrsla 2017


Share: