Minning látinna heiðruð

nóvember 4, 2009
Eins og flestum er kunnugt á Borgarbyggð sér vinabæ í Frakklandi. Þetta er bærinn Bonsecours, heimabær þess merka franska vísindamanns Jean-Baptiste Charcot. Það er minning hans sem varð til þess að vinabæjasambandinu var komið á á sínum tíma, en það var árið 1996. Það ár voru liðin 60 ár frá því að Charcot og áhöfn hans á skipinu Pourquoi-pas? fórust í hörmulegu sjóslysi við Straumfjörð. Árlega minnist franska sendiráðið látinna franskra sjómanna og er það gert um Allra-heilagra messu í byrjun nóvember. Meðfylgjandi mynd var tekin við slíka athöfn í Hólavallakirkjugarði í gær þar sem Caroline Dumas sendiherra Frakka á Íslandi lagði blómsveig að minnismerki um látna sjómenn.
Vegna áðurnefndra tengsla Borgarbyggðar við Frakkland var fulltrúa frá sveitarfélaginu boðið að vera við athöfnina. Við þetta tækifæri voru flutt sjómannaljóð eftir íslenska og franska höfunda og undirstrikaði það vináttu þjóðanna. Í máli sendiherrans komu m.a. fram innilegar þakkir til þeirra Íslendinga sem í gegn um tíðina hafa lagt líf sitt í hættu við að bjarga sjómönnum af frönskum skipum. Verðugt er í þessu sambandi að minnast björgunarafreks Kristjáns Þórólfssonar frá Straumfirði sem vann það hreystiverk að bjarga lífi eina skipverjans af Pourquois- pas? sem af komst, Eugène Gonidec. Þegar þetta gerðist var Kristján bara 18 ára gamall.
Meðfylgjandi mynd var tekin við athöfnina í Hólavallakirkjugarði við Suðurgötu í gær. Frá vinstri: Caroline Dumas sendiherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir

Share: