Minni urðun í ár en gert var ráð fyrir

desember 16, 2021
Featured image for “Minni urðun í ár en gert var ráð fyrir”

Við viljum þakka fyrir þann árangur sem heimilin í Borgarbyggð hafa náð í sorpmálum. Íbúar eru að flokka í mun meira mæli en áður sem hefur leitt til minnkun á sorpi til urðunar. 

 

Á fyrstu 10 mánuðum ársins 2021 voru send samtals 271 tonn til urðunar frá heimilum í Borgarbyggð. Séu þessar tölur bornar saman við árið 2020 er um að ræða 100 tonnum minna en á sama tíma í fyrra en þá höfðu 369 tonn verið send til urðunar. Árið 2019 nam úrgangur til urðunar frá heimilum 479 tonnum á fyrstu 10 mánuðum ársins og því er um að ræða verulega minnkun á úrgangi til urðunar á milli ára.

 

Til gamans má geta að á fyrstu 10 mánuðum ársins hafa íbúar í Borgarbyggð skilað 107 tonnum af lífrænum úrgangi til endurvinnslu. Ekki er hægt að bera saman við heildarmagn á síðasta ári þar sem söfnunin hófst í apríl 2020. Endurvinnsluúrgangur úr grænu tunnunni er um það bil 144 tonnum á fyrstu 10 mánuði ársins samanborið við 162 tonn á sama tíma árið 2020.

 

Um er að ræða jákvæða þróun og er mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins að halda áfram á þessari braut. Samkvæmt stefnu um hringrásarhagkerfi skal úrgangur sem fer í urðun vera að hámarki 10% af heildarúrgangi fyrir lok árs 2034. Í dag erum við að setja 35% í urðun af þeim heimilisúrgangi sem fellur til frá heimilum.


Share: