Miltisbrunagrafir í Borgarbyggð

febrúar 15, 2019
Featured image for “Miltisbrunagrafir í Borgarbyggð”

Undanfarin ár hefur Sigurður Sigurðarson dýralæknir, ásamt konu sinni Ólöfu Erlu Halldórsdóttur, unnið að því hörðum höndum að safna saman upplýsingum um hvar miltisbrunagrafir sé að finna á Íslandi, þ.e.a.s. staði þar sem dýr sem drápust úr miltisbrandi voru grafin. Sýkillinn sem veldur miltisbruna/miltisbrandi myndar dvalargró og lifir nær endalaust niðri í jörðinni og getur þannig valdið nýju smiti komist hann upp á yfirborðið löngu síðar. Veikin getur lagst bæði á dýr og menn. Nú hafa þekktir staðir verið merktir með sérstökum hætti og þeir hnitsettir. Þess ber að geta að listinn er ekki tæmandi og talið er að smithætta geti leynst á stöðum sem engan grunaði. Þekktir eru á annað hundrað staðir með miltisbrunasýkingum, eða rökstuddum grun um þær, vítt og breitt um landið. Þar af eru nokkrir hér í Borgarbyggð. Nauðsynlegt er að landeigendur, bændur, allir eigendur dýra, umráðamenn lands og einnig þeir aðilar sem koma að hvers kyns framkvæmdum og jarðraski í sambandi við t.d. byggingarframkvæmdir, skurðgröft eða vegagerð, séu meðvitaðir um hættuna sem getur fylgt því að raska jörð á þessum svæðum. Viðbrögð, ef upp koma bein eða dýraleifar við framkvæmdir (leiðbeiningar frá Sigurði): 1) Stöðva framkvæmdir strax, með tilstyrk lögreglu ef þarf. 2) Kalla til dýralækni eða lækni til að fá faglegt mat á smithættuna. 3) Fela lögreglu að vakta staðinn svo að skepnur, börn eða aðrir óvitar komist ekki að honum þar til smithættu hefur verið eytt í eldi þ.e. hið grunaða flutt burtu til brennslu eða brennt á staðnum. Matvælastofnun mun vinna áfram með þau gögn sem Sigurður hefur safnað saman. Frekari upplýsingar má nálgast hjá umhverfis- og skipulagssviði.

Heimildir og nánari upplýsingar: Umfjöllun Bændablaðsins í janúar 2019. Samantekt um miltisbrand frá Sigurði, birt á vef MAST í janúar 2005.


Share: