Milli fjalls og fjöru

júní 11, 2002
Föstudaginn 14. júní, kl. 16, verður opnuð sýningin “Milli fjalls og fjöru” í Safnahúsi Borgarfjarðar, Bjarnarbraut 4-6, Borgarnesi. Þar er fjallað um skóga á Íslandi að fornu og nýju bæði frá sjónarmiði náttúrufars og menningarsögu og reynt að varpa ljósi á mikilvægi skógarins í sögu lands og þjóðar. Það eru Byggðasafn Borgfirðinga og Náttúrugripasafn Borgarfjarðar sem standa að sýningunni en aðalhönnuður hennar er Jón Jónsson á Kirkjubóli og Sögusmiðjan, fyrirtæki hans.
Í tengslum við skógasýninguna verður einnig haldin sýning á list og handverki úr tré. Höfundar verka eru Hannes Lárusson, Guðmundur Sigurðsson, Páll Jónsson, Steinunn Eiríksdóttir, Sverrir Vilbergsson, Þórir Ormsson og Helgi Runólfsson.
Við opnunina mun Ísleifur Friðriksson sýna eldsmíði ef veður leyfir. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og fyrsti þingmaður Vesturlands mun opna sýninguna en opnuin er liður í Borgfirðingahátíð sem stendur yfir dagana 14.-17. júní.
Með opnun skógasýningarinnar er Safnahús Borgarfjarðar að taka í notkun nýtt sýningarhúsnæði og verða þar einnig fastasýningar byggaðsafns og nátturúgripasafns sem stefnt er að því að endurnýja á næstu árum. Sýningin verður opin í sumar kl. 13-18 alla daga.

Share: