Mikil aðsókn á ljóðasýningu í Safnahúsi

nóvember 18, 2010
Gefðu mér
eitt tækifæri
til að gera eitt
 
eitt
er betra
en ekki neitt
 
Tæplega sjötíu manns komu á opnun ljóðasýningar barna í Safnahúsi í gær og er þar um metaðsókn að ræða. Á sýningunni eru sýnd ljóð krakka í 5. bekkjum grunnskólanna í héraðinu og að þessu sinni tóku eftirtaldir þátt: Grunnskóli Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og á Varmalandi og Grunnskólinn í Borgarnesi. Ljóðin eru alls 55 og eftir jafn marga krakka. Dæmi um eitt þeirra má sjá hér að ofan, en það er ljóð eftir Guðjón Snæ sem er nemandi á Kleppjárnsreykjum.
Ljóðasýningin er árlegur viðburður og er unnin í samstarfi héraðsbókasafnsins og skólanna. Markmiðið með verkefninu er að hvetja til þess tjáningarforms sem ljóðlistin er og miðað við ljóðin sem sjá má í Safnahúsi núna er nokkuð ljóst að héraðið á sér nokkuð mörg upprennandi ljóðskáld. Sýningin verður höfð uppi til og með 26. nóvember.
 
Við opnunina var ljóðskáldsins Elínar Eiríksdóttur frá Ökrum sérstaklega minnst, en hún var fædd árið 1900 og gaf á sínum tíma út þrjár ljóðabækur. Lesið var upp ljóð eftir Elínu og annað ljóð sunguð við undirleik tveggja ungra tónlistarnema úr Borgarnesi: Vals Arnar Vífilssonar og Páls Einarssonar.
 
Ljósmyndir: Guðrún Jónsdóttir
 

Share: