Á Hvanneyri hefur orðið mikil uppbygging undanfarin misseri, en á síðustu 1-2 árum hafa margar nýbyggingar risið á svæðinu. Þar á meðal eru fjögur íbúðarhús í Flatahverfi og Sóltúni, en allt eru þetta einbýlishús sem einstaklingar hafa byggt fyrir sig og fjölskyldur sínar.
Jafnframt hefur nokkrum lóðum verið úthlutað á Hvanneyri á þessu ári. Því má búast við áframhaldandi uppbyggingu á komandi mánuðum. Enn eru lausar íbúðarhúsalóðir í Flatahverfi, á svæðinu sem liggur næst Landbúnaðarháskólanum og leikskólanum Andabæ. Einnig eru lausar atvinnulóðir austast í byggðinni, við Melabraut. Nánari upplýsingar um lausar lóðir má nálgast á síðunni lausar lóðir.
Á Hvanneyri er mjög samheldið og fjölskylduvænt samfélag með frábæran leikskóla og yngsta stig grunnskóla, staðsett aðeins 15 km frá Borgarnesi.
Ánægjulegt er að fylgjast með gróskunni í samfélaginu á Hvanneyri og að ungt fólk kjósi að byggja sér framtíðarheimili þar.