Ein myndanna sem enski aðalsmaðurinn W. G. Collingwood málaði á Íslandi sumarið 1897 hefur verið afhent Safnahúsi Borgarfjarðar til eignar og varðveislu. Um er að ræða mynd sem Collingwood málaði á Gilsbakka í Hvítársíðu þegar hann dvaldi þar á ferðum sínum um íslenska sögustaði. Alls málaði Collingwood þrjár myndir á Gilsbakka þetta sumar, eina af bænum sjálfum og aðra af gilinu við bæinn auk myndarinnar sem hér um ræðir, sem er af litlu stúlkubarni. Málverkið verður til sýnis í Safnahúsi til 27. ágúst n.k.
Fyrirmyndin var Guðrún Magnúsdóttir fædd 1896, dóttir þáverandi húsaráðenda á Gilsbakka, séra Magnúsar Andréssonar og Sigríðar Pétursdóttur. Efri myndin er eftirmynd af málverki Collingwoods, birt með góðfúslegu leyfi ljósmyndarans, Einars Fals Ingólfssonar. Á neðri myndinni er dóttir Guðrúnar Sigríður Sigurðardóttir við skrifborð afa síns Magnúsar á sýningunni um hann í Safnahúsi, mynd Collingwoods á skrifborðinu. Ljósmynd: GJ.
Sjá nánar á www.safnahus.is