Menntun og skemmtun

nóvember 10, 2010
Opið hús í Mennta-og menningarhúsinu í Borgarnesi 20. nóvember kl. 13.00 til 17.00.
Borgarbyggð hefur um árabil verið mennta-og menningarhérað, þar bera hæst tveir háskólar, á Bifröst og á Hvanneyri. Auk þess starfar hér nýr og framsækinn menntaskóli. Grunnurinn er einnig góður en leikskólar Borgarbyggðar eru fimm, hver með sínu sniði, tveir grunnskólar og tónlistarskóli.
Í tilefn þess að sveitarfélagið er að eignast Mennta-og menningarhúsið í Borgarnesi verður blásið til hátíðar í húsinu þar sem leik-, tón-, grunn-, mennta- og háskólar héraðsins kynna sig á skemmtilegan hátt. Auk þess munu menningarstofnanir eins og Landnámssetur, Brúðuheimar, Safnahús, Landbúnaðarsafnið og Snorrastofa taka þátt í hátíðinni að ógleymdum hinu áttræða en síunga Rúv, Símenntunarmiðstöð Vesturlands og nýstofnuðu dansstúdíói Evu Karenar.
Yfirskrift hátíðarinnar ber með sér áherslu á að menntun er skemmtun og þeir sem koma á hátíðina fá skemmtun á stóra sviðinu í salnum en einnig verður boðið upp á örfyrirlestra um ólík og áhugaverð málefni. Heitt verður á könnunni og allir eru velkomnir.
Nánari upplýsingar gefa Jónína Erna Arnardóttir formaður Borgarfjarðarstofu S. 662 0827, Páll Brynjarsson, 433 7100 og Þ. Embla Guðmundsdóttir S. 433 7100
 

Share: