Menntaskóli Borgarfjarðar settur

ágúst 23, 2007
Miðvikudaginn 22. ágúst var Menntaskóli Borgarfjarðar settur í fyrsta sinn. Athöfnin fór fram í Skallagrímsgarði að viðstöddu fjölmenni. Ávörp fluttu Bjarki Þorsteinsson forseti sveitarstjórnar, Torfi Jóhannesson formaður stjórnar skólans og Gísli Kjartansson sparisjóðsstjóri sem afhenti væntanlegu nemendafélagi skólans peningagjöf sem notast á til að koma félaginu á fót. Ársæll Guðmundsson skólameistari flutti setningarræðu og bauð nemendur og starfsfólk velkomið í skólann.
Að lokinni athöfn í Skallagrímsgarði gengu gestir í Safnahús Borgarfjarðar en þar mun Menntaskólinn verða til húsa fyrstu mánuðina eða þar til hið nýja skólahús sem nú er í byggingu verður tilbúðið. Þar var gestum boðið að kynna sér starfsemi skólans, skoða húsnæði og teikningar af nýja skólahúsinu og þiggja kaffiveitingar.
Flutt voru ávörp og skólanum færðar gjafir og árnaðaróskir.
Undirritaður var samningur milli skólans og Apple-umboðsins á Íslandi um að allir nemendur skólans fá afhenta fartölvu á meðan á skóladvöl stendur. Sparisjóður Mýrasýslu kemur einnig að þeim samningi.
Um 60 nemendur munu hefja nám við skólann á fjórum námsbrautum. Kennarar við skólann eru 8 auk skólameistara og aðstoðarskólameistara.
 
Meðfylgjandi myndir tók Helgi Helgason.

Share: