Páll Brynjarsson sveitarstjóri og Inga Vildís Bjarnadóttir forvarnarfulltrúi afhentu Menntaskóla Borgarfjarðar kort með gönguleiðum í nágreni skólans.
Kortið er framlag Borgarbyggðar til verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli – hreyfing.
Heilsueflandi framhaldsskóli byggist á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks. Höfuðáhersla verkefnisins er á fjögur viðfangsefni, þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.
Verkefnið var þróað í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytiðog Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), undir formerkjum HoFF samstarfsins, semsnýst um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum.
Menntaskóli Borgarfjarðar hlaut nýlega tvenn gullverðlaun fyrir verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli á skólaárinu 2012 – 2013. Verðlaunin eru fyrir framúrskarandi árangur; í fyrsta lagi við að tryggja tækifæri nemenda og starfsfólks til hreyfingar og í öðru lagi fyrir aðgengi nemenda og starfsfólks að hollum mat.
Á myndinni eru Lilja Ólafsdóttir aðstoðarskólameistari, Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari, Páll Brynjarsson sveitarstjóri og Inga Vildís Bjarnadóttir forvarnarfulltrúi Borgarbyggðar.