Menntamálaráðherra og fulltrúar Heimilis og skóla í heimsókn

febrúar 10, 2016
Menntamálaráðherra kom ásamt fríðu föruneyti í heimsókn í Grunnskólann í Borgarnesi í gær. Tilefnið var að Foreldrafélag skólans fékk í fyrra foreldraverðlaun samtakanna Heimili og skóli.
Verðlaun þessi eru veitt til eins verkefnis eða viðfangsefnis hverju sinni. Sérstök dómnefnd vinnur úr tilnefningum til verðlaunanna og byggjast niðurstöður hennar á greinargerðum og rökstuðningi þeirra aðila sem sendu tilnefningar. Verðlaunin voru veitt fyrir Gleðileikana svokölluðu.
Gleðileikarnir eru þrautaleikur þar sem nemendum á elsta stigi Grunnskóla Borgarness er skipt niður í hópa sem þurfa að leysa krefjandi verkefni sem ekki eru hluti af daglegu skólalífi. Sjálfstæði og samvinna eru einkunnarorð leikanna sem miðast að því að efla samheldni og samstöðu í samfélaginu sem og að gefa þátttakendum tækifæri til þess að spreyta sig á skemmtilegum þrautum. Allir þátttakendur fara heim af leikunum með jákvæð skilaboð í farteskinu og nýja sýn á styrk sinn og getu. Verkefnið vekur athygli í samfélaginu, eflir samstarf heimilis og skóla og virkjar foreldra í starfi með nemendum.
Árlega heimsækir menntamálaráðherra ásamt fulltrúum Heimilis og skóla þá skóla sem hljóta viðurkenningar samtakanna hverju sinni.
Borgarbyggð óskar Foreldrafélaginu og skólanum til hamingju með viðurkenninguna.
 

Share: