Menningarsamstarf við Mosfellsbæ

mars 20, 2007
Síðastliðinn föstudag var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf í menningarmálum á milli Mosfellsbæjar og Borgarbyggðar.
 
Undirritunin fór fram í Landnámssetri í Borgarnesi þar sem við sama tækifæri var tekinn í notkun sérstakur upplýsingaskjár um fornleifauppgröftinn við Hrísbrú í Mosfellsdal.
Meðal þess sem kveðið er á um í viljayfirlýsingunni er að sveitarfélögin tvö ætli sér að koma á almennu samstarfi um menningarmál með því að miðla hugmyndum og upplýsingum um menningarverkefni milli íbúa og menningaraðila á báðum stöðum. Þetta verður m.a. gert með því að greina frá um menningarviðburðum t.a.m. í gegnum heimasíður sveitarfélaganna og með öðrum þeim hætti sem hentugur er hverju sinni.
Sveitarfélögin hyggjast einnig stuðla að samstarfi milli rekstraraðila í menningartengdri þjónustu og listamanna í sveitarfélögunum eftir því sem tök eru á hverju sinni. Þetta verður m.a. gert með því að stuðla að því eftir aðstæðum hverju sinni að menningarviðburðir eins og tónleikar, myndlistarsýningar og aðrir viðburðir séu gerðir aðgengilegir fyrir íbúa beggja sveitarfélaga.
Eins og áður sagði var settur við þetta tækifæri upp skjár í Landnámssetri, með upplýsingum um fornleifaverkefni í Mosfellsdal, í samvinnu sveitarfélaganna og Landnámsseturs. Um er að ræða kynningu á fornleifaverkefninu MAP (Mosfell Archaeological Project), sem tengist bæði landnámstíð og Egils-sögu. Mosfellsbær á upplýsingaskjáinn og efni hans, en felur Borgarbyggð varðveislu og eftirlit með honum meðan hann er staðsettur í Landnámssetri.
Viljayfirlýsinguna undirrituðu Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Páll Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar. Samkomulagið um upplýsingaskjáinn var hins vegar undirritað af Bryndísi Brynjarsdóttur formanni menningarnefndar Mosfellsbæjar, Sigríði Björk Jónsdóttur formanni menningarnefndar Borgarbyggðar og Sigríði Margréti Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Landnámsseturs.
Forskot var tekið á menningarsamstarfið með því að við athöfnina lék Símon Ívarsson gítarleikari nokkur lög, en hann var bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2005 og er virkur í tónlistarlífinu í bænum.
 
Á myndinni eru talið frá vinstri: Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Páll Brynjarsson, Sigríður Björk Jónsdóttir, Bryndís Brynjarsdóttir og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir.
 
Að lokum má geta þess að á næstunni er fyrirhugað að gera svipaðan samning við Akranesbæ og verður þar hugað að samstarfsverkefnum sem koma íbúum beggja sveitarfélaga í hag.
 
Ljósmynd með frétt: Guðrún Jónsdóttir

Share: