Margrét Halldóra Gísladóttir ráðin í starf málstjóra við fjölskyldusvið Borgarbyggðar

júlí 7, 2020
Featured image for “Margrét Halldóra Gísladóttir ráðin í starf málstjóra við fjölskyldusvið Borgarbyggðar”

Margrét Halldóra Gísladóttir hefur verið ráðin í starf málstjóra við fjölskyldusvið Borgarbyggðar en hún var valin úr hópi ellefu umsækjenda.

Málstjóri veitir ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns samkvæmt óskum foreldra, skóla og/eða barns. Hann sér um að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að samþættri þjónustu við hæfi og stýrir þróunarverkefni um samþættingu skóla og velferðarþjónustu í anda snemmtækrar íhlutunar. Hann mun stýra þeirri vinnu sem hafin er að greina verkefni fjölskyldusviðs til að mæta þörfum íbúa m.a. fyrir uppeldisráðgjöf fyrir foreldra, kennsluráðgjöf fyrir skóla, um mikilvægi heilsueflingu og þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi svo eitthvað sé nefnt. Sú vinna tekur mið af áherslum Borgarbyggðar um barnvænt, heilsueflandi og valdeflandi sveitarfélag og snemmtækrar íhlutunar.

Margrét Halldóra hefur starfað sem deildarstjóri, aðstoðarleikskólastjóri og sérkennslustjóri í leikskólanum Uglukletti frá árinu 2007. Hún lauk M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á skóla fyrir alla frá Háskóla Íslands árið 2018 þar sem hún skoðaði skólastefnuna skóli án aðgreiningar sem byggir á hugmyndafræði um jafnan rétt allra til náms við hæfi.

Margrét Halldóra kemur til starfa í haust.

Um leið og við bjóðum Margréti Halldóru velkomna til starfa þökkum við umsækjendum fyrir sýndan áhuga á starfinu og óskum þeim alls hins besta.

 


Share: