
Einar var fæddur í Borgarnesi 24. júní 1929. Hann hélt sína fyrstu myndlistarsýningu árið 1947, stundaði myndlistarnám í Handíðaskólanum í Reykjavík og framhaldsnám í myndlist í Þýskalandi. Þar lagði hann einnig stund á nám í húsamálun, silkiprentun o.fl. Frá Þýskalandi hélt Einar til náms í Svíþjóð, þar sem hann starfaði sem húsamálari á daginn en nam myndlist á kvöldin.
Einar starfaði lengst af sem húsamálari í Borgarnesi, en sinnti einnig myndlistinni talsvert og hélt sýningar, þá fyrstu í Borgarnesi árið 1947. Hann tók einnig ljósmyndir og kvikmyndir af merkum atburðum í Borgarfirði og hélt sýningar á þeim í Borgarnesi og víðar. Hann hafði næmt auga fyrir náttúru og staðháttum og viðfangsefni hans voru oftast úr hans heimahéraði.
Einar giftist þýskri konu, Giselu Steffen (f. 1932), sem lifir mann sinn. Þau eignuðust þrjá syni: Ingimund, Stefán og Tómas. Einar lést í Reykjavík 11. desember 1997, eftir langvinn veikindi.
Safnahús tók saman efnið um listamanninn með góðri aðstoð sonar Ingimundar Einarssonar, sem m.a. útvegaði myndina sem fylgir þessari frétt.