Lýðheilsugöngur í blíðskaparveðri

maí 17, 2021
Featured image for “Lýðheilsugöngur í blíðskaparveðri”

Í byrjun maí hófst samstarfsverkefnið Lýðheilsugöngur. Um er að ræða samstarf milli Heilsueflandi samfélags Borgarbyggðar og Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs.

Fyrsta gangan af fjórum, var 5. maí sl. þar sem gengið var um Seleyri, í gegnum Hafnarskóg og til baka eftir ströndinni. Samkvæmt gildandi sóttvarnarreglum á þeim tíma miðaðist fjöldi þátttakenda við 50 manns og gaman er að segja frá því að það fylltist fljótt í gönguna sem leidd var af stjórnarmönnum FFB.

Þann 12. maí sl. var síðan önnur gangan gengin og þá var gengið í Húsafelli og aftur var veðrið að leika við þátttakendur. Gengið var í tveggja tíma skógargöngu meðfram Oddalindum og Hvítá þar sem alltaf bar eitthvað nýtt fyrir augum; foss, hrauns, kristaltærar uppsprettur, fuglalíf og sjálfbærar virkjanir auk fornminja og annarra mannvistarleifa.

Næsta gangan verður 19. maí nk. og er þá stefnt á Eldborg og þann 26. maí nk. verður gengið á Stafholtsfjall.

Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs fylgir sóttvarnarreglum og leiðbeiningum sem gilda í samfélaginu hverju sinni vegna Covid-19. Gestir ferðast á eigin ábyrgð í göngum og eru þátttakendur hvattir til að sýna aðgát og tillitssemi í umgengni við aðra.

Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðum Heilsueflandi samfélags Borgarbyggðar og Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs.


Share: