Ljósmyndavefur og tvær sýningar

ágúst 25, 2009
Fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17.00 verða alls þrír viðburðir í Safnahúsi. Opnaður verður ljósmyndavefur og ljósmyndasýningin „Rammar“ í Hallsteinssal auk sýningar (í anddyri) á teikningum 11 ára drengs, Matthíasar Margrétarsonar. Sýningarnar munu standa til 6. nóvember og opið verður alla virka daga frá 13-18. Allir velkomnir.

Ljósmyndavefur

Á héraðsskjalasafni Borgarfjarðar[1] er mikið magn ljósmynda. Alls eru um 15.000 myndir til á safninu og fer alltaf fjölgandi. Fram að þessu hafa þær nær einungis verið varðveittar í pappírsformi. Um er að ræða myndir frá ýmsum tímum, en elstu myndirnar eru af fólki og bæjum, teknar á 19. öld, flestar í Borgarfirði og Hvalfirði. Hér er um merkar sögulegar heimildir að ræða sem mikilvægt er að varðveita og koma á framfæri við nútímann. Það hefur lengi verið í umræðunni að skanna elstu myndir safnsins og opna ljósmyndavef, annars vegar til að bæta aðgengi almennings að myndunum og einnig til að tryggja varðveislu þeirra betur. Á síðasta ári fékkst styrkur frá Þjóðhátíðarsjóði til þessara verka og afraksturinn af því má nú sjá í opnun borgfirsks ljósmyndavefjar. Vefhönnuður er Jóhann Ísberg og það er Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar sem opnar vefinn formlega.
„Rammar“
Af ofangreindu tilefni verður einnig opnuð ný ljósmyndasýning í Hallsteinssal í Safnahúsi. Þar verða sýndar myndir sem gefnar hafa verið til skjalasafnsins í römmum og ekki hefur verið talin ástæða til að hreyfa við, enda fallegur rammi oft mikilvægur hluti af því hvernig ljósmynd nýtur sín. Hér er um að ræða merkar svipmyndir úr héraði. Sýningin hefur hlotið yfirskriftina „Rammar“ og mun standa til 6. nóvember. Umsjónarmaður er Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður.

Sýning Matthíasar

Matthías Margrétarson er ungur myndlistarmaður sem heldur hér sína fyrstu sýningu aðeins ellefu ára gamall. Hann er fæddur 15. sept. 1997 og alinn upp í Borgarnesi til 5 ára aldurs. Allt frá því að hann náði taki á blýantinum hefur hann setið við að teikna myndir langtímum saman. Matthías hefur farið á sumarnámskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur undanfarin sumur og verið á myndasögunámskeiði þar. Birtist sagan hans í Morgunblaðinu fyrr í sumar.
Matthías á ættir að rekja í Borgarnes þar sem móðir hans er Margrét Jónsdóttir, dóttir Jóns Eggertssonar kaupmanns og Guðrúnar Þórðardóttur frá Krossnesi. Faðir Matthíasar er Benedikt Matthíasson. Matthías byrjaði ungur að teikna eðlur um þriggja ára þar sem hvert bein fékk að njóta sín. Síðan komu inn ýmsar fígúrur og furðuverur, það nýjasta hjá honum er að teikna mannsandlit en furðuverurnar og fígúrurnar hafa enn vinninginn.
Safnahús Borgarfjarðar vinnur samkvæmt menningarstefnu Borgarbyggðar, en þar er sérstök áhersla lögð á faglega varðveislu og miðlun menningararfsins, sérstaklega til æsku landsins.



[1]Héraðsskjalasafn Borgfirðinga er ein af rekstrareiningum Safnahúss Borgfirðinga. Hinar eru eftirtaldar: Héraðsbókasafn Borgarfjarðar, Náttúrugripasafn Borgarfjarðar og Byggðasafn Borgarfjarðar auk Listasafns Borgarness.

 

Share: