Eins og fram hefur komið var viðurkenningin Ljósberinn afhent á Sauðamessu sem fram fór í Borgarnesi 1. október síðastliðinn. Viðurkenningin er afhent þeim fyrirtækjum og stofnunum í Borgarbyggð sem veita einstaklingum með fötlun atvinnu. Alls voru það sex fyrirtæki sem fengu viðurkenningu þetta árið.
Eitt þeirra var N1 í Borgarnesi. Herdís Jónsdóttir, stöðvarstjóri átti ekki heimangengt á Sauðamessu, en veitti viðurkenningunni viðtöku nýverið á N1. Fyrirtækið hefur staðið sig vel í því að veita einstaklingum með fötlun atvinnu allt árið. Velferðarnefnd Borgarbyggðar, sem stendur fyrir því að viðurkenningin sé veitt, þakkar N1 fyrir og óskar fyrirtækinu velfarnaðar á þessu sviði sem og öðrum. (mynd GAJ)