
Hlutverk sjóðsins er að halda uppi og heiðra minningu Guðmundar skálds Böðvarssonar á Kirkjubóli og konu hans Ingibjargar Sigurðardóttur, með því m.a. að veita verðlaun íslensku ljóðskáldi sem þykir skara fram úr að dómi stjórnarinnar og verðlauna framtak eða afrek á sviði menningarmála í Borgarfjarðarhéraði.
Athöfnin fór fram á Hótel Borgarnesi og komu þar ýmsir listamenn úr héraði fram. Þeirra á meðal var Reykholtskórinn sem söng undir stjórn Bjarna Guðráðssonar og söng hann fyrst lag við Þjóðhátíðarljóð Guðmundar Böðvarssonar, en hefð hefur skapast fyrir því að það sé flutt við úthlutanir úr sjóðnum. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri söng lög sín við ljóð Guðmundar, Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur og leikkona las nokkur ljóð eftir Guðmund, Kristín Á. Ólafsdóttir fór með geitakall og notaði í það nöfnin á geitum Jóhönnu á Háafelli og flutti líka lag við ljóð eftir Hört Pálsson. Ingibjörg Bergþórsdóttir ávarpaði samkomuna í upphafi og í lokin, en Böðvar Guðmundsson formaður sjóðsins flutti einnig ávarpsorð og stýrði dagskránni.
Á myndinni sjást verðlaunahafar ásamt stjórn sjóðsins: Böðvar Guðmundsson, Ingibjörg Bergþórsdóttir, Hjörtur Pálsson, Bjarni Guðráðsson, Jóhanna B. Þorvaldsdóttir, Steinunn Ásta Guðmundsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttir.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir