Ljóð Böðvars á tónleikum

apríl 24, 2019
Featured image for “Ljóð Böðvars á tónleikum”

Á sumardaginn fyrsta þann 25. apríl standa Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús Borgarfjarðar fyrir tónleikum þar sem nemendur skólans flytja eigin tónsmíðar við ljóð Böðvars Guðmundssonar. Um 25 lög verða frumflutt og verður Böðvar viðstaddur tónleikana sem hefjast kl. 15.00 og eru í Safnahúsi.

Þetta er í sjöunda sinn sem Safnahúsið og Tónlistarskólinn standa saman að slíku verkefni sem ber vinnuheitið Að vera skáld og skapa. Hefur verkefnið fengið afar jákvæð viðbrögð, bæði hjá nemendum skólans og fjölskyldum þeirra, svo og hjá sveitarstjórn Borgarbyggðar og íbúum í héraðinu. Það byggir á ákvæði í menningarstefnu Borgarbyggðar um frumkvæði, sköpun og menningararf.  

Um 160 nemendur stunda nú nám við Tónlistarskólann sem starfað hefur í rúm fimmtíu ár.  Safnahús hefur verið við lýði síðan um 1960. Vinna stofnanirnar að þessu verkefni þvert á fagsvið sín og verkefnisstjórar eru Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss og Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskólans. Umsjónarmaður tónleikanna er Ólafur Flosason.

Dagskráin tekur um klukkutíma og boðið verður upp á sumarkaffi að henni lokinni.

Í Safnahúsi eru sýningar af ýmsum stærðum og gerðum og verður tónleikagestum boðinn ókeypis aðgangur að þeim þennan dag.


Share: