Listsýning – vefnaður, þæfing og bókverk

apríl 8, 2019
Featured image for “Listsýning – vefnaður, þæfing og bókverk”

Ný listsýning verður opnuð í Hallsteinssal í Safnahúsi laugardaginn 13. apríl. Nefnist hún Vefnaður, þæfing og bókverk og listakonan er Snjólaug Guðmundsdóttir. Snjólaug er fædd og uppalin á Ísafirði en hefur lengi búið á Brúarlandi í Hraunhreppi á Mýrum. Hún er með vefnaðarkennarapróf frá Handíða- og myndlistaskóla Íslands og hefur kennt vefnað og mynd- og handmennt ásamt því að vinna við handíðir og hönnun í allmörg ár. Við þá iðju notar hún margs konar hráefni, svo sem ull,  skeljar, bein og fleira. Hún hefur sótt ýmis námskeið auk þess að halda sjálf námskeið, einkum í þæfingu. Snjólaug hefur bæði haldið einka- og samsýningar.  


 


Á sýningunni nýtir hún band, ull og pappír sem hún hefur lengi átt, en bætir nýju við eftir þörfum. Blómaplatta gerir hún með því að vefja ullarkembu um þæfðar afklippur og þæfa með þæfingarnál. Blautþæfð verk eru heft á viðarplötur og í þau ofnu er blandað saman nýju og gömlu. Ljóð, sem lengi voru límd á kort, eru komin í bók. Hugmyndir sínar fær Snjólaug gjarnan frá náttúrunni, ljóðum og ljóðahendingum, myndum og því sem hugurinn fangar og leiðir til hugmynda að verkum.


 


Núverandi  verkefni í Hallsteinssal er sýning Josefinu Morell og hefur hún hlotið afar góða aðsókn.  Íbúar og gestir Borgarfjarðar hafa gegnum tíðina verið duglegir að sækja listsýningar í Safnahúsi og margir listamenn í héraðinu hafa sýnt þar. Salurinn er kenndur við listvininn Hallstein Sveinsson sem gaf Borgnesingum umfangsmikið og merkilegt listasafn sitt árið 1971. Í Safnahúsi er unnið samkvæmt hugsjónum hans. Þess má geta að næsta verkefni í Hallsteinssal er fræðslusýning úr sjálfu safni Hallsteins og verður hún opnuð 18. maí.


 


Sýning Snjólaugar verður opin kl. 13.00-16.00 á opnunardaginn og eftir það 13.00-18.00 alla virka daga fram að 1. maí en eftir það alla daga samkvæmt sumaropnunartíma Safnahúss.


Share: