Meirihluti Byggðarráðs Borgarbyggðar hefur ákveðið að ganga til samninga við Lilju Björgu Ágústsdóttur, forseta sveitarstjórnar í Borgarbyggð um að gegna starfi sveitarstjóra tímabundið. Lilja Björg mun taka við starfinu á meðan unnið er að ráðningarferli nýs sveitarstjóra. Hún mun hefja störf hjá sveitarfélaginu í desember og mun gegna starfi þar til nýr sveitarstjóri hefur verið ráðinn.
Lilja Björg mun stíga til hliðar sem forseti sveitarstjórnar á meðan hún sinnir störfum sveitarstjóra.
Með ráðningu Lilju er verið að tryggja samfellu í störfum sveitarfélagsins á meðan á ráðningaferli á nýjum sveitarstjóra stendur yfir. Lilja Björg er vel kunnug málefnum sveitarfélagsins og mun taka við þeim verkefnum sem voru á borði fráfarandi sveitarstjóra.
Lilja Björg er grunnskólakennari og lögfræðingur að mennt og hefur starfað sem lögmaður undanfarið samhliða sveitarstjórnarstörfum.
Þessi ákvörðun verður lögð fyrir sveitarstjórn 12. desember n.k. til samþykktar.