Lilja Björg Ágústsdóttir ráðin sviðsstjóri stjórnsýslusviðs

desember 29, 2022
Featured image for “Lilja Björg Ágústsdóttir ráðin sviðsstjóri stjórnsýslusviðs”

Lilja Björg Ágústsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Borgarbyggðar. Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkti ráðninguna á fundi sínum í dag, 29. desember.

Lilja lauk B.S gráðu í viðskiptalögfræði árið 2015 og M.L. gráðu í lögfræði árið 2017. Árið 2018 öðlaðist hún réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi. Þá er Lilja einnig með háskólapróf í grunnskólakennarafræðum.

Lilja hefur undanfarið starfað sem lögfræðingur á velferðar og mannréttindasviði hjá Akraneskaupstað ásamt því að vera lögmaður og eigandi hjá Opus lögmönnum. Þá hefur Lilja sinnt kennslu við lagadeild Háskólans á Bifröst og starfað sem grunnskólakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar frá 2006 til 2013.

Lilja hefur setið í sveitarstjórn og byggðarráði Borgarbyggðar frá árinu 2018 en sinnt ýmsum trúnaðarstörfum á sviði sveitarstjórnarmála frá árinu 2012, m.a. sem formaður stjórnar samtaka Sveitarfélaga á Vesturlandi, fulltrúi í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og í stjórn Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Frá árinu 2019 til 2020 gegndi Lilja tímabundið starfi sveitarstjóra í Borgarbyggð.

Frá og með deginum í dag mun Lilja hætta að sinna nefndarstörfum fyrir sveitarfélagið, þar á meðal setu í sveitarstjórn og byggðarráði. Skipað verður í hennar stað strax á nýju ári. Gert er ráð fyrir því að Lilja hefji störf í janúar.

Byggðarráð Borgarbyggðar hafði ekki beina aðkomu að ráðningarferlinu venju samkvæmt heldur sáu sérfræðingar Hagvangs um ferlið ásamt teymi sem samanstóð af sveitarstjóra, mannauðsstjóra og fulltrúa úr sveitarstjórn Sigrúnu Ólafsdóttur. Var það hlutverk hópsins að sjá um faglegt ráðningarferli, taka þátt í viðtölum við umsækjendur og leggja mat á hæfni þeirra.

Samtals bárust 12 umsóknir um starfið en niðurstaða þessa ferlis var sú að Lilja Björg Ágústsdóttir var metin hæfust umsækjenda og því var henni boðið starfið.


Share: