Lífleg vetrardagskrá í Safnahúsi hafin

september 3, 2018
Featured image for “Lífleg vetrardagskrá í Safnahúsi hafin”

Vetrardagskrá er nú hafin í Safnahúsi Borgarfjarðar og hófst hún með opnun myndlistarsýningar Steinunnar Steinarsdóttur um síðustu helgi. Fékk sýningin afar góðar viðtökur á opnunardeginum og er vænst til góðarar aðsóknar að henni fram að sýningarlokum, 26. október. Heiti sýningarinnar er „Saga“ og efniviður hennar er íslensk ull. Næsti viðburður í húsinu er fyrirlestur Sigrúnar Elíasdóttur um fantasíur og furður í bókmenntum og afþreyingariðnaði, en hann verður haldinn fimmtudaginn 13. september kl. 19.30. Sama dag verður myndamorgunn á vegum Héraðsskjalasafns þar sem fólk er beðið um að aðstoða við að greina myndir. Tímasetningin er 10.30 en tekið skal fram að eftir áramótin munu myndamorgnar hefjast á breyttum tíma, þ.e. kl. 10.00 í stað 10.30. Næsta stóra verkefni hússins er svo opnun sýningar á 90 ára afmælisdegi gömlu Hvítárbrúarinnar við Ferjukot. Verður sá viðburður 1. nóvember kl. 19.30 og er sýningin unnin af Helga Bjarnasyni frá Laugalandi.  Opnun hennar er einn dagskrárliða á Menningararfsári Evrópu, en skipulag þess verkefnis hér á landi er í höndum Minjastofnunar Íslands. Nánari upplýsingar um starfsemi Safnahússins má sjá með því að fylgjast með heimasíðu þess, www.safnahus.is. Söfnin eru einnig á Facebook undir heitinu Safnahús Borgarfjarðar auk þess sem Héraðsskjalasafnið er með sérstaka Facebooksíðu undir sínu heiti. Eftirfarandi tilkynnningu um opnunartíma að vetri má sjá á heimasíðu Safnahúss: Vetraropnun hefur nú tekið gildi í Safnahúsi og gildir fram að 1. maí 2019. Er þá opið sem hér segir: Grunnsýningar á neðri hæð Opnar alla virka daga kl. 13.00-16.00. Spyrjist fyrir á bókasafninu og fáið fylgd á sýningarnar. Aðgangseyrir. Sýningar á efri hæð (Hallsteinssalur): Opið á opnunartíma bókasafns kl. 13.00-18.00.  Nokkrar sýningar eru í salnum á ári hverju, margar þeirra myndlistarsýningar. Ókeypis aðgangur. Héraðsbókasafn Héraðsbókasafnið er opið alla virka daga 13.00 – 18.00 árið um kring. Héraðsskjalasafn Héraðsskjalasafnið er opið 13.00 – 16.00 alla virka daga og einnig 08.00 – 12.00 skv. samkomulagi. Tekið skal fram að húsið er opið á öðrum tímum en ofangreint skv. samkomulagi og leiðsögn veitt fyrir hópa. Leita má frekari upplýsinga í síma 433 7200 eða senda bréf á safnahus@safnahus.is. Verið innilega velkomin í Safnahús – starfsfólk. Ljósmynd með frétt:  Steinunn Steinarsdóttir við nokkur verka sinna s.l. laugardag. Myndataka: Halldór Óli Gunnarsson.


Share: