Markaðsherferð Borgarbyggðar fyrir sumarið 2021 hófst með formlegum hætti í síðustu viku. Markaðsherferðin tekur mið af markaðsstefnumótun sveitarfélagsins sem kynnt var í júlí á síðasta ári. Lesa má nánar um hana hér.
Markaðsherferðin mun standa yfir frá júní til ágúst á þessu ári þar sem áhersla verður lögð á að kynna sveitarfélagið sem vænan búsetukost sem og spennandi og áhugaverðan áfangastað fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Unnið er með mismunandi kynningarefni á helstu miðlum landsins, til að mynda ljósmyndir, myndbrot og vitnisburði íbúa í sveitarfélaginu.
Kynningarefnið ýtir undir allt það góða sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða, til dæmis öll skólastig, stórbrotna náttúrufegurð, fjölbreytta þjónustu og afþreyingu fyrir alla aldurshópa.
Um er að ræða bæði innri og ytri markaðsherferð og verður kynningarefnið sýnilegt á samfélags-, ljósvaka- og netmiðlum landsins.
Borgarbyggð hvetur alla íbúa til þess að birta myndir úr sveitarfélaginu og merkja þær með myllumerkinu #sveitarfelagidborgarbyggd og #bíðurþíníBorgarbyggð.