Lestrarstefna Borgarbyggðar

júní 7, 2017
Featured image for “Lestrarstefna Borgarbyggðar”

Unnið hefur verið að því í vetur að móta lestrarstefnu Borgarbyggðar en tilgangur hennar er að halda utan um heildarsýn um framkvæmd og þróun kennslu á sviði máls og lesturs í leik- og grunnskólum. Stefnunni er ætlað að styðja við starf skólanna, skilgreina markmið og leiðir sem síðan eru útfærð frekar í hverjum skóla fyrir sig. Þróun lesturs er ævilangt ferli allt frá upphafi máltöku fram á fullorðinsár og er mikilvægt að skólarnir komi að þeirri þróun hjá hverjum nemanda með markvissum og eflandi hætti. Markmið lestrarstefnu er því að tryggja jafnan rétt allra nemenda í sveitarfélaginu til gæðakennslu á sviði máls og lesturs.   Meginmarkmið lestrarstefnu eru:

  • Að tryggja samfellu í námi barna í máli og lestri frá leikskóla til loka grunnskóla.
  • Að styðja við starfsþróun skólanna, skýra markmið og leiðir sem farnar eru í skólum sveitarfélagsins.
  • Að veita foreldrum yfirsýn yfir lestrarnámið og skýra hlutverk foreldra og skóla.

  Það er metnaðarmál í Borgarbyggð að nemendur njóti bestu hugsanlegrar kennslu í máli og lestrartengdum þáttum allt frá því þeir hefja nám í leikskóla fram að útskrift úr grunnskóla. Í skólunum er lögð áhersla á ríkulegt lestrarumhverfi, bækur eru sýnilegar og nemendur hvattir til að lesa, skoða og ræða bækur. Kennarar sinna málörvun og lestrarkennslu markvisst eftir þörfum hvers aldursstigs og er þá horft jöfnum höndum til lesskilnings, lestraránægju, lestrarnákvæmni og lestrarhraða. Unnið er markvisst að eflingu orðaforða, hlustunar og málfærni alla skólagöngu barnsins. Foreldrum er gerð grein fyrir mikilvægi þess að þeir sinni málörvun og lestri heima og taki þannig þátt í að efla þennan mikilvæga námsþátt hjá börnum sínum. Foreldrar fá fræðslu um hvernig þeir geta best sinnt ólíkum þörfum barna á hverju aldursstigi. Fylgst er reglubundið með framvindu barna í máli og lestri og gripið með viðeigandi hætti inn ef ástæða er til.  

Lestrarstefna Borgarbyggðar 2017


Share: