Mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypti af stokkunum lestrarverkefninu Tími til að lesa 1. apríl s.l. Börn og fullorðnir eru hvött til að nýta þennan óvenjulega tíma til lesturs en þörfin fyrir hugaleikfimi hefur sjaldan verið meiri en nú. Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu er stefnt að því að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að lestur sé sérstaklega mikilvægur fyrir börn, enda ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri. Lestur veitir fullorðnum örvandi hvíld frá amstri og áhyggjum dagsins og með lestri aukum við veg íslenskrar tungu. Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum.
Árangurinn er mældur í tíma og eru íbúar Borgarbyggðar hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags.
Því meira sem við lesum því betra!