Leikskólinn Ugluklettur fékk úthlutað 1.250.000 úr Sprotasjóði

júní 16, 2022
Featured image for “Leikskólinn Ugluklettur fékk úthlutað 1.250.000 úr Sprotasjóði”

Þann 1. júní sl. fór fram úthlutun úr Sprotasjóði mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrir árið 2022. Leikskólinn Ugluklettur fékk úthlutað 1.250.000 kr. vegna verkefnisins Lýðræðislegt innra mat í leikskólanum Uglukletti. Gaman er að segja frá því að þetta í þriðja skipti sem Ugluklettur fær úthlutað úr sjóðnum.

Markmið verkefnisins er að þróa markvisst og kerfisbundið innra mat leikskólans með þátttöku barna, foreldra og starfsfólks, innleiða aðferðir innra mats og umgjörð sem taka mið af virku nemendalýðræði auk þess að samræmast aðalnámskrá leikskóla og skólanámskrá Uglukletts. Tilgangurinn er að bæta innra mat leikskólans og samtvinna það öðru starfi og ýta undir virka, lýðræðislega og árangursríka menningu innan skólans þegar kemur að innra mati. Til að ná markmiðunum fær starfsmannahópurinn tækifæri til að vinna að starfendarannsókn með fræðslu og umræðum um lýðræðislegar matsaðferðir með sérstakri áherslu á virka þátttöku barna. Þetta verður gert í anda lærdómssamfélagsins og umbótamiðari nálgun.Vilji er til að þróa starfsaðferðir sem stuðla að virkri þátttöku barna í mati á skólastarfinu og ná fram þeirra sýn með það að markmiði að styrkja þá upplifun þeirra að þau geti haft áhrif á eigin námsaðstæður og starf leikskólans.

Hlutverk Sprotasjóðsins er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi og er hann sameiginlegur fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á Íslandi. Áherslusvið sjóðsins þetta árið eru, – virkt nemendalýðræði, – gagnrýnin hugsun, sköpun og skilningur með áherslu á læsi og – nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Að þessu sinni voru 58 umsóknir og voru samanlagðar fjárbeiðnir 151,3 milljónir króna en til ráðstöfunar voru 56 milljónir króna og var ákveðið að veita styrk til 36 verkefna. Lesa má nánar um önnur verkefni hér.


Share: