Leikskóli frá því að fæðingarorlofi lýkur

maí 23, 2017
Featured image for “Leikskóli frá því að fæðingarorlofi lýkur”

Faglegt leikskólastarf er sá kostur sem þykir eftirsóknarverðastur fyrir börn og foreldra eftir að fæðingarorlofi lýkur. Leikskólar starfa samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámskrá þar sem meðal annars er kveðið á um eftirlit sveitarfélaga og ráðuneytis með starfsemi leikskóla. Rannsóknir benda til þess að það sé verulegur faglegur ávinningur fyrir yngstu börnin að vera í góðum leikskólum með vel menntuðu starfsfólki. Þetta á sérstaklega við um börn með seinkaðan þroska, börn sem búa við bága félagslega stöðu og börn af erlendum uppruna.

Stjórnendur leikskóla Borgarbyggðar telja sig reiðubúna að vista börn frá því að fæðingarorlofi foreldra lýkur nú í haust ef húsnæði, starfsmannahald og fjárhagur leyfir. Vel hefur gengið að aðlaga 12 mánaða börn í leikskólana og hafa deildarstjórar yngstu barna deilda hist og deilt hugmyndum um starfsemi með svo ungum börnum.

Byggðarráð samþykkti á fundi sínum 18. maí sl. að þróa leikskólastarf í Borgarbyggð á þann veg að allt að 9 mánaða ungum börnum bjóðist leikskóladvöl að loknu fæðingarorlofi. Þetta fyrirkomulag stendur yfir frá hausti 2017 í 12 mánuði til reynslu. Var fræðslunefnd, sviðsstjóra fjölskyldusviðs og skólastjórnendum falin frekari útfærsla sem verður kynnt foreldrum bráðlega.


Share: