Tveir leikskólakennarar kynntu stjórnendum leikskóla lokaverkefni sín í meistaranámi.
Margrét Halldóra Gísladóttir fjallaði um meistaraverkefni sitt sem ber titilinn „Það eiga allir rétt á að vera hluti af hópi“ um skólastefnuna skóli án aðgreiningar og hvernig orðræða fjögurra deildarstjóra í leikskólum birtist gagnvart henni. Einnig voru skólanámskrár leikskólanna þar sem deildarstjórarnir starfa skoðaðar og kannað hvernig skólastefnan skóli án aðgreiningar endurspeglast í þeim.
Skóli án aðgreiningar byggir á hugmyndafræði um jafnan rétt allra til náms, hugmyndafræðin leggur áherslu á menntun en er ekki síður leið til þess að koma á samfélagslegum breytingum sem stuðla að jafnrétti og þátttöku allra.
Í niðurstöðum rannsóknar Margrétar Halldóru kemur í ljós að deildarstjórarnir eru hikandi þegar þeir ræða um skólastefnuna skóli án aðgreiningar, þeir telja að þeir geti mætt flestum börnum í starfi deildarinnar en vart verður við „já-en“ viðhorfið í orðum þeirra. Allir deildarstjórarnir leggja mikla áherslu á að vinna með leikinn í störfum sínum og telja að þátttaka barnanna í leik og öðrum verkefnum á deildinni skipti miklu máli. Það kemur einnig fram að deildarstjórarnir eru sannfærðir um það að nám flestra barna geti farið fram í leik og eru áherslur skólanámskránna á sömu leið. Þegar orð deildarstjóranna í garð sérkennslu voru skoðuð komu fram mismunandi sjónarmið, sum þessara sjónarmiða falla undir hugmyndir um læknisfræðilega líkanið um fötlun á meðan önnur eiga samleið með hugmyndum um skóla án aðgreiningar.
Guðbjörg Hjaltadóttir, aðstoðarleikskólastjóri Klettaborgar gerði grein fyrir meistaraverkefni sínu sem ber titilinn „Örvun bernskulæsis í þremur leikskólum“ um málörvun og samskipti.
Leikskólakennarar þurfa að nota ólíkar kennsluaðferðir, vönduð vinnubrögð, snemmtæka íhlutun og grípa til gagnreyndra og hnitmiðaðra aðferða til að örva málþroska barna og það er líka áhrifaríkasta leiðin til að efla bernskulæsi.
Ein helsta niðurstaða rannsóknar Guðbjargar er að unnið er með bernskulæsi í leikskólunum á fjölbreyttan og oft svipaðan hátt, með svipaðan efnivið. Leikskólakennarar eru mjög meðvitaðir um að þjálfa hljóðkerfisvitund hjá börnunum, setja orð á athafnir í daglegu starfi ásamt því að lesa fyrir þau. Umhverfi leikskólabarnanna er læsishvetjandi og leikskólakennarar styðjast að nokkru leyti við læsisstefnur í starfi sínu. Í tveimur af þremur leikskólum í rannsókninni hrærast börnin í umhverfi þar sem mikil fagleg vinna fer fram með það að markmiði að örva og hvetja til bernskulæsis hjá þeim.
Borgarbyggð óskar þeim Guðbjörgu og Margréti Halldóru til hamingju með áfangann.