Fimmtudaginn 14. júní var leiðtogadagur í Uglukletti. Í ár var hann með þeim hætti að auk þess að rækta andann og efla okkur sjálf, ræktuðum við garðinn okkar. Markmiðið með leiðtogadeginum var að efla börnin og gefa þeim tækifæri til þess að nýta þá reynslu sem þau hafa öðlast í verki. Börnin skipulögðu daginn sjálf, með hjálp starfsfólks og mis mikið eftir þroska og aldri. Þau völdu sér leiðtogahlutverk, sem hvert og eitt krafðist þess að þau hefðu trú á sjálfum sér og gætu tekið af skarið. Börnin bjuggu til áætlun og forgangsröðuðu hvaða verkefni við tækjum okkur fyrir hendur. Hópurinn komst að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig þau ætluðu að hafa hlutina þannig að allir væru sáttir og æfðu sig þannig í því að hlusta á skoðanir hvers annars. Að auki lærðu þau að allir hafa sína kosti, allir væru góðir í einhverju og gætu lagt sitt að mörkum.
Börnin voru búin að skoða garðinn og ræða það sem þyrfti að laga og hverju þau vildu bæta við. Þegar búið var að ákveða verkefnin þurfti að huga að hvaða efni þyrfti til, fara að kaupa spýtur, ná í kurl og svo framvegis. Börnin buðu foreldrum sínum að koma og hjálpa til þegar þeirra vinnudegi lyki. Strax kl: 10.00 um morguninn byrjuðu litlar hendur að vinna að sínum verkefnum og mátti varla nokkur maður vera að því að fara í hádegismat. Eftir hádegi byrjaði fjörið aftur en foreldrar og aðrir gestir komu inn í verkefnin þegar þeirra vinnudegi lauk. Þannig varð til hinn skemmtilegasti seinnipartur, allir hjálpuðust að, samheldni og kraftur var allsráðandi. Að sjálfsögðu gerðum við vel við okkur og grillaðar voru pylsur. Það voru stolt börn sem gengu frá verki þennan dag með nýtt útieldhús, kurl í kringum hvert tré, ný gróðursett tré auk þess að við erum með hreinan og fínan garð þar sem tré og runnar dafna í bættu umhverfi. Við þökkum öllum gestum okkar kærlega fyrir komuna og alla hjálpina.