Landssamtök sauðfjárbænda í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, almannavarnir og sóttvarnalæknir hafa gefið út leiðbeiningar vegna gangna og rétta í Borgarbyggð vegna Covid-19. Um þessar mundir eru fjallskilanefndir sveitarfélagsins að undirbúa leitir og réttir með þessar leiðbeiningar að leiðarljósi.
Fjöldi fólks sem heimilt er að fylgi hverjum fjáreigenda verður í hlutfalli við fjölda fjár til fjallskila. Hver fjallskilanefnd mun kalla eftir nafnalista hjá fjáreigendum en öðrum gestum verður ekki hleypt að réttarsvæðinu. Fjallskilanefndir í Borgarbyggð munu útfæra leitir og réttarstörf á hverjum stað og er fjáreigendum bent á að hafa samband við sína fjallskilanefnd fyrir nánari upplýsingar.
Markmiðið er að lágmarka smithættu sem allra mest en tryggja að sama skapi velferð búfjár.
Að öðru leyti munu eftirfarandi reglur gilda:
- Vegna fjöldatakmarkana er mælst til þess að gestir komi ekki til réttarstarfa. Einungis þeir sem eiga fjárvon í réttum eða eru þar til að aðstoða við réttarstörf er heimilt að koma í réttina. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin fjöldatakmörkun
- Allir sem taka þátt í göngum og réttum skulu hlaða niður smitrakningarappi almannavarna.
- Þeir sem mæta í réttir og hafa nýlega dvalið erlendis þurfa áður að hafa fylgt landamærareglum um sóttkví og sýnatöku. Frekari upplýsingar má finna hér.
- Vegna smitvarna er mælst til þess að áfengi verði ekki haft um hönd.
- Fjallaskálar/húsnæði sem notað er við göngur eru eingöngu opin fyrir smala og þá sem hafa hlutverk í göngum/leitum þann tíma sem göngur/leitir standa yfir.
Leiðbeiningar um göngur og réttir má sjá hér.