Landsmóti Samfés í Borgarnesi lokið !

október 5, 2003
 
Vel heppnuðu Landsmóti Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi sem Félagsmiðstöðin Óðal og stjórn nemendafélags G.B. sá um framkvæmd á var slitið í morgun. Hátt í 400 landsmótsgestir héldu sælir og glaðir til síns heima eftir að hafa tekið þátt í skemmtulegu starfi um helgina.
Landsmótið var sett á föstudagskvöld með flugeldasýningu á sundlaugardiskóteki í íþróttamiðstöðinni. Á laugardeginum fóru unglingarnir og starfsfólk í 23 mismunandi smiðjur þar sem menn hafa væntanlega farið heim með hugmyndir um starf sem hægt er að setja upp á heimavelli í hinum 60 félagsmiðstöðvum sem þarna voru með fulltrúa sinn.
Að loknum hátíðarkvöldverði á Hótel Borgarnesi var svo slegið upp dansleik þar sem Á móti sól lék ásamt fleirum. Unglingar úr Borgarbyggð bættust svo í hópinn á ballinu og var þetta mikið stuðball með um 500 unglingum á hótelinu.
 
Mótsgestir voru einstaklega ánægðir með móttökur og framkvæmd þessa viðamikla verkefnis sem eins og allir hafa tekið eftir hefur hleypt lífi í bæinn og í raun borgarfjörðinn allan þessa helgi. Ekki eitt agabrot kom upp á mótinu og er vel við hæfi að hrósa þessum frábæru ungmennum öllum fyrir kurteisi og sérstaklega góða umgengni hvar sem þau komu.
Til hamingju unglingar þið eruð langflottust og voruð til fyrirmyndar !
i.j.

Share: