Landsæfing Rauða krossins – Eldað fyrir Ísland

október 14, 2014
Rauði krossinn á Íslandi stendur fyrir landsæfingu sunnudaginn 19. október og býður þjóðinni jafnframt í mat. Alls verða um 50 fjöldahjálparstöðvar opnaðar um allt land þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins standa vaktina, rétt eins og um alvöru neyðarástand væri að ræða. Í Borgarbyggð verða fjöldahjálparstöðvarnar þrjár, í Menntaskóla Borgarfjarðar, Háskólanum á Bifröst og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Opið verður frá kl. 11.00 til kl. 15.00 og vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í æfingunni með því einfaldlega að mæta á staðinn, skrá sig inn og þiggja íslenska kjötsúpu í boði Klúbbs matreiðslumeistara.
Á síðustu vikum höfum við sem búum á þessari eyju í Norður-Atlantshafi verið rækilega minnt á kraft óútreiknanlegra náttúruafla. Hættan er ætíð til staðar fyrir alla sem hér eru staddir, þar sem neyð gæti orðið raunin á örskammri stundu. Skapist alvöru neyð er mikilvægt fyrir alla landsmenn, og gesti okkar einnig, að vita hvert á að sækja hjálp og hvar er hægt að komast í öruggt skjól.
Rauði krossinn á Íslandi vonast til að sjá sem flesta á landsæfingunni. Það er hagur okkar allra. Með þinni þátttöku fá sjálfboðaliðar okkar æfingu í að opna stöðvarnar og taka á móti stórum hópi fólks. Þiggðu súpu, það hjálpar okkur.
F.h. Rauða krossins í Borgarbyggð,
Elín Kristinsdóttir formaður
 

Share: