Dagana 28.-30. ágúst n.k. stendur rekstrarfélagið Selás ehf fyrir landbúnaðarsýningu í og við reiðhöllina í Borgarnesi. Sýningin er að fá góðar undirtektir og verður hún eina sinnar tegundar á landinu í haust. Vel fer á því að halda þessa sýningu í Borgarfirði þar sem að í héraðinu eru mörg af öflugustu búum landsins, eins hentar húsnæði reiðhallarinnar afar vel fyrir sýningu af þessu tagi. Húsið er 2000 fm og útisvæðið gríðarlega stórt
Rúmlega helmingur af sýningarbásum er seldur og má nefna fyrirtæki á borð við Lífland, Íslensku gámaþjónustuna, Búnaðarsamtök Vesturlands, bændur sem starfa innan samtakanna Beint frá býli, Kaupþing, Kaupfélag Borgfirðinga, Flugger málningu, Áburðarverksmiðjuna og ýmsa fleiri. Vilja aðstandendur sýningarinnar hvetja alla þá sem hafa hagsmuna að gæta til að taka þátt í sýningunni. Starfsmenn sýningarinnar eru Sigríður Sjöfn Helgadóttir sýningarstjóri ,sigridur.s(hja)simnet.is/696-1686 og um markaðsmál sér Birna Sigurðardóttir, birna(hja)markfell.is/898-3925.
Margt verður um að vera meðan á sýningunni stendur og má nefna m.a. fegurðarsamkeppni íslenska hundsins og er hér með auglýst eftir þátttakendum.Einnig verður dýrasýning þar sem verða m.a. íslenska landnámshænan og fasanar, kindur, hestar og kýr svo eitthvað sé nefnt, sýning á gömlum dráttarvélum, Rita í Ullarselinu sýnir sitthvað og margt fleira verður um að vera. Takið helgina frá!
BÓNDI ER BÚSTÓLPI